Undanfarin misseri hefur verið rætt um að slaki sé farinn að myndast á vinnumarkaði eftir mikla spennu síðustu ár. Flestir hagvísar á borð við fólksflutninga til landsins og skort á starfsfólki í stærstu fyrirtækjum landsins bentu til aukins slaka í fyrra, þó kólnun hafi ekki komið fram í atvinnuleysistölum fyrr en í byrjun þessa árs. Þá mældist skráð atvinnuleysi yfir 4% í fyrsta sinn í þrjú ár.
Hversu mikil áhrif hefur gjaldþrot Play á vinnumarkaðinn?
Skráð atvinnuleysi var 3,5% í september samkvæmt nýlegum tölum Vinnumálastofnunar. Atvinnuleysi er árstíðarbundið og mælist jafnan mest í byrjun árs og á seinni hluta þess. Atvinnuleysi mælist nú að meðaltali 3,8% það sem af er ári. Búist er við að það aukist í október í kjölfar gjaldþrots Play, en félagið lýsti yfir gjaldþroti í lok september. Um 420 starfsmenn misstu vinnuna og 55 til viðbótar hjá flugþjónustufyrirtækinu Airport Associates, sem meðal annars þjónustuðu Play. Ef gert er ráð fyrir því að allir skrái sig á atvinnuleysisskrá hækkar fjöldi atvinnulausra í 8.320 manns og atvinnuleysi í 3,7%. Líklegt er þó að hluti þessa starfsfólks finni sér annað starf strax eða skrái sig í nám og verði því ekki á atvinnuleysisskrá. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi verði á bilinu 3,6-3,7% í október.
Play hafði dregið verulega úr starfsemi sinni fyrir gjaldþrot. Félagið hafði meðal annars hætt öllu flugi til Bandaríkjanna og einbeitti sér að sólarlandaferðum til Evrópu. Því eru áhrifin á vinnumarkað takmörkuð og mun minni en þegar WOW air varð gjaldþrota árið 2019. Þá misstu um 1.100 vinnuna og atvinnuleysi jókst úr 3,2% í 3,7%. WOW air var stærra félag með meiri markaðshlutdeild og umfangsmeiri starfsemi en Play. Auk þess lá fyrir að vegna minnkandi umsvifa á Íslandi myndi verulegur hluti starfsfólks félagsins missa vinnuna óháð gjaldþrotinu í síðasta mánuði.

