Er vinnumarkaðurinn að kólna?

Atvinnuleysi hefur þokast upp að undanförnu og gert er ráð fyrir að atvinnuleysi aukist enn frekar í næsta mánuði vegna gjaldþrots flugfélagsins Play. Heildaráhrif gjaldþrotsins verða þó líklega takmörkuð. Útlit er fyrir að launahækkanir verði minni á næstunni en undanfarin ár, nema til komi launaskrið.


Undanfarin misseri hefur verið rætt um að slaki sé farinn að myndast á vinnumarkaði eftir mikla spennu síðustu ár. Flestir hagvísar á borð við fólksflutninga til landsins og skort á starfsfólki í stærstu fyrirtækjum landsins bentu til aukins slaka í fyrra, þó kólnun hafi ekki komið fram í atvinnuleysistölum fyrr en í byrjun þessa árs. Þá mældist skráð atvinnuleysi yfir 4% í fyrsta sinn í þrjú ár.

Hversu mikil áhrif hefur gjaldþrot Play á vinnumarkaðinn?

Skráð atvinnuleysi var 3,5% í september samkvæmt nýlegum tölum Vinnumálastofnunar. Atvinnuleysi er árstíðarbundið og mælist jafnan mest í byrjun árs og á seinni hluta þess. Atvinnuleysi mælist nú að meðaltali 3,8% það sem af er ári. Búist er við að það aukist í október í kjölfar gjaldþrots Play, en félagið lýsti yfir gjaldþroti í lok september. Um 420 starfsmenn misstu vinnuna og 55 til viðbótar hjá flugþjónustufyrirtækinu Airport Associates, sem meðal annars þjónustuðu Play. Ef gert er ráð fyrir því að allir skrái sig á atvinnuleysisskrá hækkar fjöldi atvinnulausra í 8.320 manns og atvinnuleysi í 3,7%. Líklegt er þó að hluti þessa starfsfólks finni sér annað starf strax eða skrái sig í nám og verði því ekki á atvinnuleysisskrá. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi verði á bilinu 3,6-3,7% í október.

Play hafði dregið verulega úr starfsemi sinni fyrir gjaldþrot. Félagið hafði meðal annars hætt öllu flugi til Bandaríkjanna og einbeitti sér að sólarlandaferðum til Evrópu. Því eru áhrifin á vinnumarkað takmörkuð og mun minni en þegar WOW air varð gjaldþrota árið 2019. Þá misstu um 1.100 vinnuna og atvinnuleysi jókst úr 3,2% í 3,7%. WOW air var stærra félag með meiri markaðshlutdeild og umfangsmeiri starfsemi en Play. Auk þess lá fyrir að vegna minnkandi umsvifa á Íslandi myndi verulegur hluti starfsfólks félagsins missa vinnuna óháð gjaldþrotinu í síðasta mánuði.

Í nýlegri þjóðhagsspá, sem þó var gefin út fyrir fall Play, spáðum við því að skráð atvinnuleysi á árinu yrði að jafnaði um 3,8%. Eftir atburði síðustu vikna er líklegra að atvinnuleysi verði nær 4% í ár.

Vísbendingar um kólnandi vinnumarkað

Fólksflutningar til landsins er ein besta vísbendingin um stöðuna á íslenskum vinnumarkaði. Þegar spenna var sem mest á vinnumarkaði fluttu 2-3 þúsund einstaklingar til landsins á hverjum ársfjórðungi. Undir lok síðasta árs tók að hægja verulega á þessum aðflutningi og hefur sú þróun haldist svipuð á þessu ári. Til að mynda fluttu 1.500 einstaklingar til landsins á fyrri hluta ársins, sem er 37% færri en á sama tíma í fyrra og 60% færri en á sama tíma árið 2023.

Önnur góð vísbending um stöðuna á vinnumarkaði er könnun Gallup á meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins. Þar telja einungis 21% stjórnenda vera skort á starfsfólki í sínu fyrirtæki miðað við nýjustu niðurstöður sem birtar voru í Hagvísum Seðlabankans í septemberlok. Niðurstaðan er svipuð og í júníkönnun Gallup, en fyrir það þarf að leita aftur til fyrsta ársfjórðungs 2021 til að finna lægra hlutfall. Þegar skorturinn var sem mestur, um mitt ár 2022, töldu 56% stjórnenda skort vera á starfsfólki. Athyglisvert er að skortur á starfsfólki virðist vera langmestur í byggingastarfsemi þar sem 41% fyrirtæki telja vera skort. Í öðrum atvinnugreinum er hlutfallið 5-27%.

Verðbólga undir viðmiðum: Stöðugleikasamningur stendur

Langtímakjarasamningar voru undirritaðir í fyrra þegar spenna á vinnumarkaði var enn talsverð. Sú staða mun því lita launaþróunina á næstu árum þrátt fyrir aukinn slaka á vinnumarkaði. Langtímakjarasamningar drógu hins vegar talsvert úr óvissu um launaþróun á komandi misserum. Stöðugleikasamningurinn nær til um 70% almenns vinnumarkaðar og gildir frá febrúar 2024 til janúar 2028. Samningurinn felur í sér um 3,25-3,5% launahækkanir á ári eða að lágmarki 23.750 krónur. Til viðbótar koma mögulegir kauptaxta- og framleiðniaukar. Nú þegar hefur komið til kauptaxtaauka en hann tók gildi 1. apríl síðastliðinn og hækkuðu lágmarkskauptaxtar um 0,58%.

Opinberir starfsmenn sömdu einnig um sambærilegar launahækkanir, auk launatöfluauka sem virkjaðist 1. september. Þá hækkuðu launatöflur BHM og BSRB um 0,75-1,24%.

Forsenduákvæði í Stöðugleikasamningum byggja á viðmiðum um verðbólgu. Fyrir þetta ár voru ákvæðin þannig að endurskoða skyldi samninginn ef verðbólga í ágústmælingu færi yfir 4,95% og verðbólga á tímabilinu mars til ágúst hefði mælst yfir 4,7% á ársgrunni.

Í ágúst mældist ársverðbólga 3,8% og var því talsvert undir þessum viðmiðum. Næsta mögulega endurskoðun getur orðið 1. september 2026, ef ársverðbólga í ágúst það ár fer yfir 4,7% og verðbólga á tímabilinu mars-ágúst mælist yfir 4,4% á ársgrunni. Samkvæmt verðbólguspá okkar í Greiningu verður ársverðbólga nokkuð frá þessu viðmiði, í ágúst á næsta ári spáum við 3,8% ársverðbólgu.

Hóflegri launahækkanir framundan

Launavísitala hefur hækkað um 7,7% á síðustu 12 mánuðum. Þó sú hækkun virðist mikil við fyrstu sýn hafa laun hækkað að jafnaði um 7,6% á ári síðasta áratug. Gert er ráð fyrir að laun hækki um 7,8% á þessu ári, en mest af þeirri hækkun hefur þegar átt sér stað. Þá eru flestar samningsbundnar launahækkanir þegar komnar fram auk kauptaxtaauka á almennum vinnumarkaði og launatöfluauka fyrir opinbera starfsmenn.

Í þjóðhagsspá Greiningar er því spáð að laun hækki um 5,4% árið 2026 og 5,3% árið 2027. Ef sú spá gengur eftir verða launahækkanir því nokkuð undir meðaltali síðustu ára og má því segja að þær verði hóflegar í því samhengi. Verði mikið launaskrið á tímabilinu gætu laun hækkað meira en spáin gerir ráð fyrir. Kaupmáttur launa, sem hefur haldið velli þrátt fyrir mikla verðbólgu, mun vaxa mest á þessu ári en með hóflegri hætti næstu tvö ár.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband