Ávarp bankastjóra

Íslandsbanki mældist efstur í Íslensku ánægjuvoginni hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu, sjötta árið í röð - þetta er staðfesting á viðleitni okkar frábæra starfsfólks um að vera #1 í þjónustu. Við kynntum fjölmargar stafrænar lausnir til leiks á árinu og studdum við áframhaldandi vöxt í þjóðfélaginu með m.a. virkri lánastarfsemi til einstaklinga og fyrirtækja, öflugri fyrirtækjaráðgjöf og gjaldeyrismiðlun. Við stofnuðum fyrsta græna skuldabréfasjóðinn á Íslandi.


Afkoma bankans og Íslandssjóða var sterk á árinu og skilaði samstæðan hagnaði upp á 10,6 ma. kr. Fjármögnun bankans gekk vel og er lausafjárstaðan sterk í bæði íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum og áhætta bankans er áfram hófleg. Undanfarin ár höfum við einblínt á að nútímavæða bankann og byggja upp ábyrga viðskipta- og áhættumenningu. Við ætlum að halda þeirri vegferð áfram á nýju ári m.a. með því að ráðast í stefnumótun sem mun skila sér í enn betri banka til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Við fögnum útgáfu nýrrar hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kom út í lok 2018 sem staðfestir hve miklar umbætur hafa átt sér stað í íslensku bankakerfi á undanförnum árum. Hvítbókin bendir einnig á þunga skattbyrði íslensks bankakerfis sem hefur fyrst og fremst bitnað á íslenskum neytendum og vonumst við til að sjá breytingar hvað þetta varðar.

Stafræn þróun í fyrirrúmi

Stafræn þróun var áberandi í starfsemi Íslandsbanka árið 2018 og kynntum við fjölmargar nýjungar á því sviði. Opnað var fyrir samstarf við fjártæknifyrirtæki og við lukum stærsta tækniverkefni bankans frá stofnun þegar ný grunnkerfi voru tekin í notkun á haustmánuðum. Á grundvelli þessa hlökkum við til að hraða enn frekar þróun vandaðra stafrænna lausna og bjóða upp á nýjungar sem auka þægindi í bankaviðskiptum og bætta þjónustu fyrir viðskiptavini okkar.

Efst í Íslensku ánægjuvoginni

Við erum afar ánægð með að sjötta árið í röð mælumst við efst í Íslensku ánægjuvoginni á íslenskum bankamarkaði. Hátt þjónustustig er án efa stór hluti ástæðunnar og við leggjum áherslu á að notendaupplifun verði sem best í þeirri hugbúnaðarþróun sem framundan er. Við höfum lagt kapp á að bjóða upp á vandaðar lausnir sem geta nýst viðskiptavinum hvar og hvenær sem er. Stór hluti viðskiptavina okkar á samskipti við bankann með rafrænum hætti og fjöldi þeirra eykst stöðugt. Sem dæmi má nefna að notendafjöldi Íslandsbankaappsins jókst um 27% á árinu og að nú fara um 95% greiðslumata vegna húsnæðislána fram á vefnum.

Fjármögnun og þjónusta við fyrirtæki

Við beindum kastljósinu meðal annars að litlum og meðalstórum fyrirtækjum á árinu. Við gáfum í fyrsta skipti út vandaða skýrslu um stöðu og rekstrarumhverfi slíkra fyrirtækja og fylgdum henni eftir með metnaðarfullu fræðslustarfi. Í skýrslunni kom fram að lítil og meðalstór fyrirtæki keyra áfram hagvöxt á Íslandi og því er mikilvægt að hlúa vel að þeim en þjónusta Íslandsbanka við þennan mikilvæga hluta atvinnulífsins hefur mælst hæst á meðal samkeppnisaðila í viðhorfsmælingum sem við erum afar sátt með. Staða okkar er einnig sterk í viðskiptum við stór fyrirtæki og fagfjárfesta og höfum við markað okkur stöðu sem leiðandi aðili í sambankalánum en meðal slíkra verkefna á árinu var stærsta sambankalán í sögu íslensks sjávarútvegs. Við leggjum áherslu á ábyrga þátttöku í fjármögnun verkefna og hefur vandvirkni og traust samband við viðskiptavini skilað okkur og viðskiptavinum okkar góðum árangri. Fyrirtækjaráðgjöf bankans átti frábært ár og lauk 40 verkefnum á árinu og jafnframt var árið mjög farsælt í gjaldeyrismiðlun bankans.

Fyrsti hrávörusjóður Íslands var stofnaður af dótturfélagi okkar Íslandssjóðum á árinu auk þess sem fyrsti græni skuldabréfasjóður landsins var boðinn fagfjárfestum. Við erum afar stolt af því að taka með þeim hætti virkan þátt í að byggja hér upp markað með græn skuldabréf sem tengjast sjálfbærum og samfélagslega ábyrgum verkefnum.

Við erum afar ánægð með að sjötta árið í röð mælumst við efst í Íslensku ánægjuvoginni á íslenskum bankamarkaði. Hátt þjónustustig er án efa stór hluti ástæðunnar og við leggjum áherslu á að notendaupplifun verði sem best í þeirri hugbúnaðarþróun sem framundan er.

Rekstur bankans og Íslandssjóða sterkur og fjármögnun fjölbreytt

Íslandsbanki og Íslandssjóðir skiluðu sterkri afkomu á árinu en erfiður rekstur dótturfélaga, sem bankinn setti nýlega í söluferli, hafði neikvæð áhrif á uppgjör samstæðunnar. Hagnaður samstæðunnar á árinu 2018 nam 10,6 milljörðum íslenskra króna sem samsvarar 8,0% arðsemi eigin fjár auk þess sem arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi var 6,1% sem er í takti við væntingar. Fjármögnun bankans var vel heppnuð á árinu og er lausafjárstaðan mjög sterk í bæði íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum. Áhættustýring bankans var öflug á árinu og stendur hlutfall lána með laskað lánshæfi í 1,7% sem telst mjög gott í alþjóðlegum samanburði.

Þátttakandi í samfélaginu

Sem fyrr leggjum við ríka áherslu á vandaða fræðslu og umræðu. Það er einkar ánægjulegt að á þeim tímum sem ungt fólk leitar æ sjaldnar í útibú skuli ítrekað vera fullt út úr dyrum á fræðslufundum okkar og námskeiðum varðandi sparnað, fjárfestingar og íbúðakaup. Fræðsla okkar varðandi starfslok hefur aldrei verið umfangsmeiri en í fyrra en þá mættu um 1.600 gestir á 34 fundi og fræðsla okkar fyrir flóttafólk mæltist vel fyrir. Fjöldinn allur af umræðuþáttum vakti verðskuldaða athygli á vefnum sem og afar vel sóttur fundur okkar um jafnréttismál , sem er sá fjórði í röðinni um atvinnuþátttöku og -tækifæri kvenna.

Stefna í takt við breytta tíma

Í lok árs gaf ríkisstjórnin út hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið og er margt áhugavert sem þar kemur fram. Mikið af tillögum starfshópsins er í takt við þá vinnu sem er þegar hafin hjá bankanum enda sameiginlegur vilji allra að byggja upp traust fjármálakerfi. Samkvæmt könnunum mælist traust ennþá lágt til fjármálakerfisins enda tekur langan tíma að byggja upp traust eftir bankahrunið 2008 og það mætti í raun segja að það taki heila kynslóð. Ljóst er þó að bankinn hefur breyst mikið á undanförnum tíu árum með ábyrgari viðskiptamenningu og auknu regluverki. Bankinn mun halda áfram að breytast hratt og mun verða til í allt annarri mynd, en við þekkjum hann í dag, innan nokkurra ára. Það er okkar hlutverk að þróa starfsemina í takt við nýja tíma á sama tíma og við byggjum upp traust með ábyrgum viðskiptum. Við tókum þá ákvörðun að nota fyrri hluta ársins 2019 til að fara í stefnumótun fyrir bankann. Við gerum það með væntingar viðskiptavina okkar í huga og erum þess fullviss að þetta skili okkur enn betri starfsemi sem sé í góðum takti við samfélagið. Mun áherslan því vera mikil á sjálfbærni og ábyrgan rekstur. Við hlökkum til að starfa áfram í góðum samskiptum við okkar viðskiptavini, eigendur og aðra hagsmunaaðila og horfum björtum augum á spennandi tíma framundan.