Fréttir Greiningar
Spáum 0,1% hækkun neysluverðs í október
19.10.2015 10:37
.gif?proc=_Greining)
Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa batnað lítið eitt frá síðustu spá okkar, m.a. vegna gengisstyrkingar krónu og endurmats okkar á launaþróun á seinni hluta spátímans. Við teljum að verðbólgan verði rétt innan við verðbólgumarkmið Seðlabankans í árslok. Horfur eru á vaxandi verðbólgu í kjölfarið. Verður hún samkvæmt spánni rétt yfir verðbólgumarkmiðinu að jafnaði á næsta ári, en nærri efri mörkum markmiðsins árið 2017. Hagstofan birtir VNV fyrir október kl. 09:00 þann 29. október næstkomandi.
Tíðindalítil októbermæling?
Margt bendir til að fremur litlar sviptingar verði í októbermælingu VNV. Horfurnar eru þó í stórum dráttum þannig að innlendir liðir muni fremur vega til hækkunar, en innfluttir til lækkunar. Af hækkunarliðum í spá okkar vegur þyngst húsnæðisliðurinn, sem við áætlum að muni hækka um rúm 0,4% milli mánaða (0,12% í VNV). Er það að stærstum hluta vegna 0,7% hækkunar á reiknaðri húsaleigu (0,10% í VNV), en þá spá byggjum við á könnun okkar á þróun markaðsverðs.
Þá gerum við ráð fyrir 3,5% hækkun á flugfargjöldum til útlanda, og í heild hafa flugfargjöld áhrif til 0,04% hækkunar VNV í október. Aðrir liðir hafa samanlagt áhrif til 0,02% hækkunar VNV í spá okkar.
Eldsneyti, matvara og gisting til lækkunar
.gif?proc=_Greining)
Eldsneytisverð hefur lækkað frá septembermælingu Hagstofunnar, og bendir athugun okkar til þess að lækkunin muni nema rúmlega 1% (-0,03% í VNV). Þá áætlum við að verð gistingar muni lækka um 5% í október (-0,02% í VNV) og er þar um árstíðarbundin áhrif að ræða.
Verðbólga við markmið í árslok
.gif?proc=_Greining)
Við gerum ráð fyrir 0,1% hækkun VNV í nóvember og 0,2% hækkun í desember. Samkvæmt þeirri spá mun verðbólga mælast 2,4% í lok árs. Í spá okkar gerum við m.a. ráð fyrir að afnám tolla af fötum og skóm um næstu áramót hafi áhrif á næstu mánuðum, og þá að verslanir komi til með að lækka vöruverð í aðdraganda áramótanna. Gæti verðþróunin þar því orðið áþekk þeirri sem var hjá raftækjaverslunum í fyrra þegar þau brugðust við fyrirhuguðum lækkun vörugjalda á raftækjum um áramótin með því að lækka verð fyrir breytingu. Enn sjást þó engin merki um slíka verðlækkun, öfugt við reynsluna í fyrra þegar framangreindar vörur tóku að lækka nokkrum mánuðum fyrir áramót.
Innlendur verðbólguþrýstingur er umtalsverður þessa dagana. Þar vegur þungt umtalsverð hækkun launa hjá stórum hluta vinnumarkaðarins í nýlegum kjarasamningum, en einnig kemur til viðvarandi hækkun raunverðs íbúðarhúsnæðis og vaxandi framleiðsluspenna á ýmsum sviðum hagkerfisins. Munu þessir þættir þrýsta verðbólgu upp á við. Á móti vegur talsverð hækkun á gengi krónunnar undanfarið og lítill innfluttur verðþrýstingur. Við spáum því að verðbólga muni aukast jafnt og þétt á næsta ári, og gerum við ráð fyrir 3,4% verðbólgu í lok ársins 2016 en 3,6% yfir árið 2017. Verðbólga verður samkvæmt spánni rétt undir efri mörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans seinni hluta spátímabilsins.
Verðbólguspá fyrir október
Verðbólguspá fyrir október
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?