Framtíðin er óráðin, en....

26.06.2012 - Þór Clausen

Að búa til áætlun skiptir öllu máli þegar kemur að því að skipuleggja fjármál heimilisins. Þótt við sjáum ekki fyrir það sem gerist í framtíðinni getum við, með því að búa til áætlun, fengið betri sýn yfir fjármálin okkar.

Að búa til áætlun snýst að mestu um það að stilla upp einföldu dæmi sem sýnir alla útgjaldaliði heimilisins og stilla þeim á móti þeim ráðstöfunartekjum sem fyrir hendi eru. Eitt mikilvægasta atriðið í fjármálum heimilanna snýst um þetta, að útgjöldin verði ekki meiri en ráðstöfunartekjurnar. Til þess að það verði þarf að fylgjast vel með hve miklu er eytt og í hvað er eytt. 

Þegar kemur að því að skoða þetta ferli að gera áætlun, sem kallast áætlanagerð, eru oftast tveir hópar neytenda. ÞAU og við hin. ÞAU eru fólkið sem við hin biðjum um að reikna hvað hver þarf að borga þegar fleiri eru saman út að borða. ÞAU muna nákvæmlega hve miklu þau eyddu í ýmsan kostnað undanfarna mánuði. Okkur hinum finnst ÞAU greina fjármálin sín niður í öreindir. Hvað gerum við hin? Við heitum því að á morgun munum við skoða fjármálin okkar nánar, byrja að halda heimilisbókhald og ná yfirsýn. Þetta er það sem við viljum gera en vandamálið er bara það að oftar en ekki frestum við að hrinda því í framkvæmd.

Einfaldasta leiðin til að taka á fjármálunum er að gera sér grein fyrir að nauðsynlegt er að afla meira en eytt er. Þegar búið er að leggja það á minnið þá er hægt að byrja að fínstilla fjármálin. Það þarf ekki að vera flókið, en það mikilvægasta er að búa til einfalda áætlun sem er sinnt og farið eftir, endurskoðuð reglulega og verður vonandi til þess að ákveðin hegðun lærist. Athugið að hér er eingöngu verið að skoða daglega eyðslu en ekki stærri útgjöld líkt og húsnæðiskostnað, tryggingar og þess háttar. Skoðum nokkrar einfaldar ráðleggingar:

Skref 1: Gerið ykkur grein fyrir í hvað þið eruð að eyða
Allar áætlanir byggjast á því að lista þarf upp þá liði sem mynda eyðsluna. Nauðsynlegt er að átta sig á því hve miklu er eytt í mat, snyrtivörur, föt, bensín og fleira. Þannig næst ákveðin sýn yfir fjármálin. 

Skref 2: Áætlið útgjöld næstu mánaða
Þegar þið hafið náð tökum á mánaðarlegri eyðslu er næsta skref að áætla útgjöld fleiri mánaða. Gott að miða við tólf mánaða tímabil. Búið til lista yfir það sem eyða þarf í næstu vikur og mánuði. Þá eruð þið búin að búa til að áætlun um eyðslu fram í tímann. Það þýðir að þið eruð búin að setja ykkur markmið um hve miklu þið ætlið að eyða í hvert sinn sem þið opnið veskið. Þessi markmið verða síðan til þess að aðstoða ykkur við að taka ákvarðanir í fjármálum, í hvað á að eyða og hvenær.

Skref 3: Deilið kostnaði niður á mánuði fyrirfram
Nú þegar búið er að setja markmið um eyðslu þá getið þið dreift kostnaðinum á mánuðina fyrirfram. Til dæmis ef ykkur vantar ný dekk á bílinn sem kaupa þarf í nóvember, þá er skynsamlegt að setja upphæðina strax inn í áætlunina. Segjum að dekkin kosti 100.000 kr.. Það þýðir að kr. 20.000 falla til á mánuði næstu fimm mánuði. Ef áætlunin gengur eftir þá eigið þið fyrir dekkjunum þegar það þarf að kaupa þau í október.

Skref 4: Setjið upp einfalt sparnaðarkerfi
Nú eruð þið búin að búa til áætlun um útgjöldin næstu mánuðina. Nú þarf að horfa til þess að markmiðin sem þið settuð ykkur verði að veruleika. Eitt ráð er að fela peningana fyrir sjálfum ykkur! Þannig verður ein einfaldasta sparnaðarleiðin að leggja þann pening sem afgangs er í hverjum mánuði beint á sparnaðarreikning, annan reikning en þann sem þið notið til að greiða fyrir daglega eyðslu. Þið sjáið samkvæmt áætluninni hve mikið er afgangs í hverjum mánuði og bankinn ykkar getur aðstoðað ykkur við millifærsluna.

Skref 5: Eyðið minna í óþarfa hluti
Lífið er fullt af freistingum. Umslagaaðferðin er ein aðferð sem hefur hjálpað mörgum til að takast á við eyðslu í óþarfa hluti eða eyðslu umfram ráðstöfunartekjur. Það eina sem þarf eru umslög og penni. Skrifið á umslögin „matur“, „bensín“, „afþreying“ eða einhvern annan kostnaðarlið sem auðvelt er að missa úr böndunum. Setjið ákveðna upphæð í reiðufé í umslagið sem þið áætlið samkvæmt áætluninni að eyða í viðkomandi kostnaðarlið. Svo þegar peningarnir „hverfa“ jafnt og þétt, þurfið þið að finna leið til að spara í viðkomandi kostnaðarlið því þið ætlið ekki að bæta við peningum í umslagið fyrr en næstu mánaðamót. Ef til dæmis umslagið með bensínpeningum tæmist, þá hjólið þið í vinnuna.

Heimilisbókhald hjálpar til
Sem viðmið má nefna að fjórir stærstu kostnaðarliðir heimila eru húsnæðiskostnaður (34%), flutningskostnaður á milli staða (18%), matur (13%) og afþreying (4%). Þessar einföldu reglur hjálpa vonandi til við að finna nýjar skynsamar leiðir til að bæta fjármálin. Þær snúast í grófum dráttum um að fá sýn yfir eyðslu og varast að eyða alls ekki umfram ráðstöfunartekjur. Meniga heimilisbókhaldið, sem nokkrir bankanna á Íslandi bjóða upp á í dag er frábært tæki sem aðstoðar við þetta. Það er vert að kynna sér þetta tæki og þannig ná þessari mikilvægu heildarsýn yfir fjármálin.

Efni og innihald greina endurspegla ekki mat eða skoðanir Íslandsbanka heldur einungis þeirra aðila sem þær skrifa.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall