Sumarfrí

16.05.2012 - Gunnar Hákonarson

Að afloknum vetri rennir fólk hýru auga til sumarsins og veltir vöngum yfir því hvernig skuli verja sumarfríinu. Yndislegur tími er framundan og með góðri skipulagningu má koma í veg fyrir eða minnka mjög fjárhagsáhyggjur fólks. Það getur jú kostað skildinginn að fara í sumarfrí. Góð skipulagning margborgar sig þar sem þú nýtir mun betur frítíma þinn og fjármuni.

Skipulagning

Í upphafi skyldi endinn skoða svo forðast megi vanghugsuð fjárútlát. Hvort sem ferðast skal innan eða utan landsteinanna þarf að gera góða fjárhagsáætlun. Um leið og hver dagur er skipulagður er hægt að áætla kostnað við hvern viðburð. Á internetinu má t.d. finna kostnað við aðgöngumiða að söfnum og skemmtigörðum svo eitthvað sé nefnt. Huga þarf að samgöngukostnaði og matarkostnaði þar sem slíkur kostnaður er gjarnan mjög vanmetinn. Jafnvel þó svo að verðlag í sumum löndum sé lægra en hér þá getur kostnaður farið úr böndunum þar sem fólk missir verðskyn og gerir mun betur við sig í mat og drykk en ella. Gott er að deila ferðafénu í umslög svo þú freistist síður til að eyða um efni fram. Ef þú hefur aldrei haldið heimilisbókhald þá er svona skipulagning góð æfing fyrir það.

Safnaðu fyrir fríinu

Það er ekki bara ódýrara að fara í frí sem maður hefur safnað fyrir en að taka lán fyrir því. Það fylgir því líka góð tilfinning að eyða pening sem þú átt og yndislegt að vera laus við fjárhagsáhyggjur. Það eru margar sparnaðarleiðir í boði og þær henta fólki misvel. Hafðu samband við ráðgjafa í bankanum þínum og fáðu sparnaðaráætlun fyrir næsta sumarfrí og um leið einnig fyrir öðrum skammtíma- og langtímasparnaði.

Sparnaður í áskrift er góð leið til að safna fyrir sumarfríinu því þá millifærist sjálfkrafa í byrjun mánaðar inn á sparnaðarreikning og þá mætir sparnaðurinn ekki afgangi. Bundnir sparnaðarreikningar gefa jafnan betri ávöxtun en óbundnir, en gættu þess að inneignin sé laus til útborgunar þegar þú þarft á henni að halda. Einnig getur verið gott að kaupa í sjóðum þar sem þeir eru alltaf lausir til útborgunar með stuttum fyrirvara, en sveiflur í gengi þeirra geta þó mögulega verið þér óhagstæðar þegar þú þarft á sparnaðinum að halda.

Góð ráð

  • Forðastu að kaupa minjagripi. Mestu verðmætin liggja í ljósmyndum og myndskeiðum en ekki í tréklossa frá Hollandi eða í eftirlíkingum frægra minnismerkja.
  • Ekki nota kreditkortið til að kaupa gjaldeyri úr bönkum. Oft á tíðum rukka erlendir bankar há gjöld fyrir slíkar úttektir jafnvel þó þú notir hraðbanka.
  • Ekki kaupa tjaldvagn/hjólhýsi nema að þú notir það svo mikið að það borgi sig. Betra er að leigja slíkt þar sem ýmiss annar kostnaður fellur til en innkaupsverð eins og t.d. tryggingar og geymsluhúsnæði yfir veturinn. Einnig getur verið hagkvæmara að leigja frekar en að kaupa jeppa eða stóra bíla í hálendisferðir eða til að draga stóra tjaldvagna/hjólhýsi. Mestur akstur er gjarnan innan þéttbýlis og þá er hagkvæmast að eiga lítinn sparneytinn bíl. Ergo býður upp á græn bílalán sem eru hagstæðari en önnur bílalán. Auk þess eru grænir bílar ódýrir í rekstri og með lægri bifreiðagjöld og jafnvel frítt að leggja í bílastæði í Reykjavík. Það gæti því borgað sig að skipta um bíl.
  • Þó svo að þú pantir hótel og/eða bílaleigubíl með löngum fyrirvara til að fá gott verð, leitaðu samt aftur tilboða rétt áður en þú ferð út þar sem „last minute" tilboð eru stöðugt í boði. Kannaðu samt fyrst hvort að pöntun þín sé bindandi og hve mikið það kostar að losna undan bindingunni.
  • Kauptu þér góða ferðahandbók. Slíkar bækur eru uppfullar af fróðleik um hvað er um að vera, hvaða veitingastaðir eru góðir og ódýrir og svo framvegis. Bókabúðir á netinu eins og Amazon selja ferðahandbækur og þar getur þú lesið umsagnir annarra um þær svo þú finnir bók sem hentar þér. Ef þú ætlar að ferðast innanlands þá eru t.d. árbækur Ferðafélags Íslands með framúrskarandi upplýsingar um hina ýmsu landshluta.
  • Í staðinn fyrir að gista á hóteli þá er hægt að gista mun ódýrar í heimahúsi. Hægt er að leigja íbúðir á leitarvefjum eins og homeaway.com eða gista ókeypis með því að skipta á íbúðum. Íbúðaskipti verða sífellt vinsælli og margar leitarvefsíður í boði eins og t.d. homeexchange.com og couchsurfing.org

Efni og innihald greina endurspegla ekki mat eða skoðanir Íslandsbanka heldur einungis þeirra aðila sem þær skrifa.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall