Að draga andann í nýju starfi

07.05.2012 - Þröstur Olaf Sigurjónsson

Ein afleiðing efnahagshrunsins haustið 2008 er sú að fjöldi fólks missti störf sín og margt af því fólki hefur hafið störf á nýjum vettvangi. Þegar reynslumikið fólk á í hlut, gerir það oft þá kröfu til sjálfs síns að „detta hlaupandi inn í nýja starfið“. Það er að segja, að það fari strax að skila miklum og áþreifanlegum árangri. Þetta eru reyndar þær væntingar sem flestir atvinnurekendur hafa til reynslumikils fólks sem þeir ráða. Viðkvæðið er, að fyrst um ræðir reynslumikið fólk, oft með gott tengslanet, þurfti það ekki tíma til þess að kynnast fyrirtækjabragnum, starfsfólki fyrirtækisins eða öðru í innra eða ytra umhverfi þess. Vitanlega er metnaður flestra þannig að það leggur sig fram og vill gera fyrstu upplifun atvinnurekandans sem besta. Þetta er eðlilegt. Nýtt starfsfólk vill og þarf að sanna sig. En þó atvinnurekandinn verði ánægður, kann upphaf sem þetta að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér fyrir viðkomandi starfsmann.

Megin vandinn við það að „detta hlaupandi inn í nýtt starf“, er að sjaldnast veit fólk nákvæmlega hvað það kann að hlaupa á. Það vakna spurningar um það hvort að verkefnin sem tekin verða til kastanna hafi bein eða óbein óæskileg áhrif á samstarfsmenn eða hvort verkefnin „ruggi bátnum“, sem betur hefði mátt vera stöðugur. Viðkomandi þarf átta sig á því með hvaða hætti ólík nálgun við verkefni geti haft áhrif á framtíðar möguleika starfsmannsins. Ef of skart er af stað farið í nýju starfi, kann skaðinn að vera skeður áður en viðkomandi nær fullum áttum.

Nýtt starfsfólk er í þessari vandasömu stöðu að þurfa að sanna sig, en það þekkir í flestum tilfellum ekki til staðhátta. Það þarf að reiða sig á atvinnurekandann / stjórnandann, en það er þó ekki trygging fyrir því að allar nauðsynlegar upplýsingar komist til skila. Stjórnendur ekki síður en aðrir geta haft skakka mynd af stöðunni þó í eigin fyrirtæki sé. Vandinn felst í því að eiga góða innkomu án þess að spilla samstarfi til framtíðar, hvort sem það er við samstarfsmenn, birgja, viðskiptavini eða aðra. Það á ekki að skipta máli hversu mikill þrýstingurinn er, fólk verður að gefa sér tíma til þess að kynnast fyrirtækinu, rekstrinum, starfsfólki og öðrum hagsmunaaðilum. Slíkt gerist fyrst og fremst með því að tala við samstarfsaðila og lesa í gegn fyrirliggjandi gögn um starfsemina og atvinnugreinina. Yfirleitt er reglan sú, að á fyrstu vikum og jafnvel mánuðum í nýju starfi leyfist nýju starfsfólki að spyrja spurninga, sem eftir sex mánuði, eitt eða tvö ár munu hljóma sérkennilega. Tækifærið til að spyrja og læra er á fyrstu vikum og mánuðum í nýju starfi.

Þeir sem ætla sér að rjúka af stað og sanna sig á fyrstu metrunum og hljóta aðdáun fyrir, þeir kunna þegar upp er staðið að baka sér meiri óvild samstarfsmanna en stuðning. Fyrst er að vinna vináttu og traust samstarfsmanna, áður en farið er af stað með áhlaupi, sem á endanum kann að setja samstarfsmenn á óheppilegan stað hvað samanburð varðar. Samstarfsmenn kunna þá að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að hægja á eða skemma fyrir nýjum starfsmanni. Ef mistekst að koma á góðu samstarfi í upphafi, kann að vera erfitt að koma því á síðar. Staðreyndin er sú að í flestum tilfellum er erfitt að koma verkefnum á áfangastað án samvinnu við samstarfsmenn.

Því ætti nýtt starfsfólk að vera á varðbergi ef atvinnurekandinn / yfirmaðurinn notar er orðalag eins og „þú þarft að koma fljúgandi inn í starfið og taka til“, „þú þarft að endurskipuleggja starfsemina sem fyrst“. Ef orðalag sem þetta er notað gagnvart nýju starfsfólki, gæti það gefið til kynna ýmsa veikleika. Ef staðan er sú að nýr starfsmaður á ekki að fá tækifæri til þess að koma sér inn í reksturinn, skilja hann og ná trausti samstarfsmanna, kann það að gefa tilefni til þess að ætla að eitthvað skorti á í starfseminni og stjórnun. Það kann þó vel að vera að fyrirtækið sé að leita að einstaklingi til þess að koma og taka hraustlega til hendinni, en það er hins vegar ekki góð staða fyrir þann sem horfir til lengri tíma viðveru hjá fyrirtækinu. Þá er í raun meira verið að leita eftir ráðgjafa sem hugsaður er til tímabundins verkefnis. En þarna verður að gera skýran greinarmun á. Þeir sem koma inn sem ráðgjafar í hlutverk sem þetta, þeir eru venjulega farnir eftir skamman tíma. Og ef einstaklingur er raunverulega ráðinn inn á þeim nótum, þá verður viðkomandi að semja um allt annars konar kjör en sá sem hugsar sér starf til lengri tíma.

Efni og innihald greina endurspegla ekki mat eða skoðanir Íslandsbanka heldur einungis þeirra aðila sem þær skrifa.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall