Fasteignakaup: Nokkrir þættir sem gott er að hafa í huga

02.05.2012 - Rúnar Guðnason

Hjá flestum eru fasteignakaup dýrasta og mikilvægasta fjárfesting lífsins. Að kaupa fasteign getur verið góð fjárfesting, en ef kaupin eru ekki vel ígrunduð hvað varðar verð, gæði, greiðslugetu o.fl. getur fjárfestingin verið slæm. Til þess að fyrirbyggja slæma fjárfestingu er gott að hafa nokkra þætti í huga þegar kaupa á fasteign.

Verð

Stærð, staðsetning, endursölumöguleikar og ástand fasteigna eru mikilvægir þættir sem þarf að taka tillit til þegar verð fasteigna er metið með tilliti til þess hvort fasteignin sé „hátt verðlögð" eða „lágt verðlögð". Til þess að gera sér betur grein fyrir hvort íbúð sé á góðu verði er gott að taka saman upplýsingar um sambærilegar íbúðir í sama hverfi. Ef verið er að leita eftir til dæmis 70 fermetra kjallaraíbúð í hverfi 107 er gott að taka saman upplýsingar um allar kjallaraíbúðir á sölu í hverfi 107, sem eru á bilinu 60-80 fermetrar og finna hvert fermetra verð á þessum íbúðum er að meðaltali. Með því að gera þetta er hægt að fá betri hugmynd um hvað er „gott verð" og hvað er „hátt verð". Mikilvægt er þó að hafa í huga að gæði og verð fasteigna haldast oft í hendur. Það þarf þó ekki alltaf að vera og því er hægt að auka líkurnar á góðum kaupum með því að gera verðsamanburð.

Ástand fasteignar

Ástand fasteigna er æði misjafnt. Öruggasta leiðin til þess að fyrirbyggja kaup á eign þar sem ástand hennar er ábótavant er að fá með sér fagmenn í húsbyggingum til þess að meta fasteignina áður en tilboð er gert. Þetta er mikilvægt þar sem þættir líkt og ástand lagna er ekki alltaf auðvelt að meta eða sjá með berum augum.

Þegar eign er skoðuð er ágætis regla að spyrja eiganda um hvernig viðhaldi á húsnæðinu hefur verið háttað og spyrja einnig um aldur og ástand raflagna, ofnalagna, neysluvatnslagna og skólplagna. Mikilvægt er að skoða ytra byrgði fasteignarinnar vel líkt og ástand þaks, glugga, glers og klæðningar og fá upplýsingar um þykkt einangrunar í útveggjum og þaki.

Að fá með sér fagmenn í húsbyggingum til þess að meta hverja einustu fasteign sem skoðuð er getur verið kostnaðarsamt. Því er ágætt að byrja á að skoða fasteignina án fagmanna, spyrja spurninga varðandi ástand hennar og ef mikill áhugi er fyrir fasteigninni að fara þá aftur að skoða með fagmenn sér við hlið. Einnig er sá möguleiki fyrir hendi að fá fagmenn til þess að meta eignina eftir að kauptilboð hefur verið samþykkt með því að setja fyrirvara um að kaupin gangi aðeins í gegn eftir að fagmenn hafi yfirfarið íbúðina og ekki fundið neina stórvægilega vankanta á ástandi eignarinnar.

Kauptilboð

Þegar komið er á fasteignasöluna til þess að gera kauptilboð er ágætis regla að vera búinn að ákveða hvaða hámarksverð viðkomandi er tilbúinn að greiða endanlega fyrir eignina. Samningaferlið er sjaldnast þannig að fyrsta tilboði sé tekið og því gott að vera búinn að ákveða eitthvert hámarksverð þegar gangtilboð berst frá eiganda eignarinnar. Ef fyrsta tilboði er tekið er tilboðið líklega of gott! Ef samningar takast ekki á því hámarksverði sem þú ert tilbúinn að borga er ekkert annað að gera en halda áfram að leita, því það eru fjölmargar aðrar fasteignir í boði. Með því að halda sig við ákveðið hámarksverð er frekar hægt að fyrirbyggja að of hátt verð sé greitt fyrir eignina. Einnig getur verið varasamt að taka ástfóstri við eina tiltekna eign og líta á hana sem hina einu sönnu draumaeign. Það getur verið ansi kostnaðarsamt, til að mynda ef þetta er draumaeign einhverra annarra líka!

Útgjöld

Útgjöld vegna fasteignakaupa er varasamt að vanmeta. Fyrir utan afborganir af lánum falla til föst útgjöld líkt og brunatrygging, fasteignagjöld, hiti og rafmagn, viðhald og hússjóður ef um fjölbýli er að ræða. Eftir því sem eignin er stærri því hærri verða útgjöldin. Það er enginn ánægja fólgin í því að búa í stórri og fallegri íbúð ef allar tekjurnar fara í að borga af eigninni og útgjöldum henni tengdri og fólk hefur endalausar áhyggjur af því að láta enda ná saman. Hafðu það hugfast þegar þú hyggur á fasteignakaup að vanmeta ekki útgjöldin sem henni fylgja.

Lán

Flestir þurfa að taka lán þegar þeir fjárfesta í fasteign. Lánamöguleikum hefur fjölgað nokkuð undanfarin misseri og því mikilvægt að ígrunda þá vel.

Fyrir þá sem þola nokkrar sveiflur í útgjöldum og hafa mikla greiðslugetu getur borgað sig að taka óverðtryggð lán. Þau lán eru flest þannig uppbyggð að vextir þeirra eru ýmist fastir til 3-5 ára eða breytilegir og taka þá breytingum í takt við breytingar á vaxtatöflu bankanna, sem breytist yfirleitt í takt við stýrivaxta ákvarðanir Seðlabanka Íslands.

Fyrir þá sem ekki þola miklar sveiflur í útgjöldum gæti borgað sig að taka blöndu af verðtryggðu- og óverðtryggðu láni, eða eingöngu verðtryggt lán.

Það er að mörgu að huga þegar kaupa á fasteign. Að undirbúa fasteignakaup vel með því að kortleggja verð og gæði þeirra eigna sem eru í því hverfi sem þú vilt búa og skoða þá eign sem þú hefur áhuga á að eignast vel og vandlega eykur þú líkurnar á að gera góð kaup.

Efni og innihald greina endurspegla ekki mat eða skoðanir Íslandsbanka heldur einungis þeirra aðila sem þær skrifa.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall