Vasapeningar

23.04.2012 - Þór Clausen

Mamma/pabbi, eigið þið pening!

"Bíóferð kostar tvöþúsundkall, að niðurhala tónlist þúsundkall og að kaupa buxur kostar tíuþúsundkall. En engar áhyggjur...gamla settið borgar". Þetta gætu hæglega verið orð unglings í íslenskri fjölskyldu í dag og með svona viðmóti getur eyðsla unglingsins farið algjörlega fram úr hófi, svo ekki sé minnst á að hann öðlast litla ábyrgðarkennd gagnvart peningum og hvernig þeirra er aflað. Þess vegna er það foreldranna að stýra þessu ferli og nýta það til að kenna börnum/unglingum sínum hvernig á að fara vel með peninga. En hvernig er best að útfæra þetta? Mismunandi aðferðir eru í gangi og foreldrar verða að gera upp við sig hvaða aðferð þeir vilja beita.

Spurningin er hvaða aðferð er skynsamlegust þegar vasapeningar eru afhentir? Eiga börn/unglingar að vinna einhver húsverk í hverri viku og fá fasta upphæð greidda fyrir? Slá blettinn, ryksuga svæði í íbúðinni, fara með ruslið eða taka úr uppþvottavélinni? Ef þau fá ekki verkefni gætu þau haldið að peningar vaxi á trjám og sjálfsagt sé að þau fái þá upp í hendurnar. Ef þau fá verkefni geta þau litið svo á að ýmis húsverk eigi eingöngu að vinna gegn greiðslu og að þau beri litla ábyrgð á ýmsum verkefnum á heimilinu. En staðreyndin er sú að vasapeningar geta verið mjög sannfærandi til að fá þau til að vinna. Börn/unglingar eru líka misviljug að aðstoða við heimilisverkin. Þetta versnar oft eftir því sem þau eldast. Hvernig sem á þetta er litið er þó ljóst að þau þurfa peninga. Sumir líta þannig á að vasapeningar séu sjálfsagðir því börn og unglingar þurfa að eyða í ýmsa neyslu sem samfélagið kallar eftir. Það sem þarf því að gera er að styðja barnið/unglinginn í að skilja hvaða tilgangi peningar þjóna, hvernig þeirra er aflað og hve fljótt þeir gufa upp. Þess vegna er mikilvægt að þau geri sér grein fyrir í hvað er skynsamlegt að eyða og hvernig sparnaður byggist upp. Foreldrar ættu ekki að gefa börnum/unglingum sínum peninga í hvert skipti sem þau biðja um þá. Þau verða að skilja að peningar vaxa ekki á trjám og að ekki er endalaust til af þeim. Þess vegna er svo mikilvægt að ræða þessi mál ofan í kjölinn. Það er hins vegar engin ein fullkomin aðferð í þessum efnum en þetta snýst um hvaða skilaboð foreldrar vilja senda til barna sinna og unglinga. Hér eru nokkrar mismunandi aðferðir sem foreldrar beita og nú verðið þið að velja aðferð sem hentar ykkur.

Aðferð 1: Viðskipti

Barnið/unglingurinn fær fasta upphæð á mánuði fyrir að vinna fyrirfram ákveðin verkefni. Ef viðkomandi vill meira, þarf hann að vinna meira.

Kostur: Viðkomandi lærir að það þarf að hafa fyrir hlutunum, vinna fyrir þeim, stunda viðskipti sem þýðir að leggja þarf eitthvað af mörkum til að fá eitthvað í staðinn. Það gefur honum líka tilfinningu fyrir því hve langan tíma tekur að vinna fyrir hlutum og hve skamman tíma tekur að eyða peningunum.

Galli: Viðkomandi lítur svo á að borga eigi fyrir allt sem hann gerir. Systkinarígur skapast einnig vegna mismunandi verkefna og upphæða.

Aðferð 2: Vasapeningar ótengdir húsverkum

Barnið/unglingurinn fær fasta upphæð á mánuði en þarf ekki að leysa af hendi ákveðin heimilisverk. Hins vegar á viðkomandi að sinna heimilisverkum vegna þess foreldrar segja að fjölskyldan eigi að hjálpast að og vinna þessi verk saman.

Kostur: Viðkomandi lærir samvinnu og hjálpsemi. Þegar skilið er á milli vasapeninga og verkefna á heimilinu, gagnast ekki að hugsa um peninga þegar verkin eru unnin.

Galli: Oftar en ekki neita börnin/unglingarnir að sinna verkefnum, taka til í herberginu sínu, fara út með ruslið og fleira og hvað á þá að taka til bragðs? Hóta að skera niður vasapeninga? Þá erum við farin að tengja vasapeningana við verkin! Þetta má heita ósanngjarnt og mörkin verða líka óskýr. Það má ekki nota vasapeninga sem tæki til refsingar.

Aðferð 3: Vasapeningar án skilyrða

Barnið/unglingurinn fær fasta upphæð á mánuði og engin skilyrði eru sett um verkefni sem inna þarf af hendi.

Kostur: Ef viðkomandi er í þeirri stöðu að þurfa nauðsynlega að einblína á lærdóm og ef til vill áhugamál líkt og íþróttir, þá getur verið kostur að gefa viðkomandi peningana því ef skilyrða ætti sinnu verkefna þá er minni tími til lærdóms og íþróttaiðkunar. Þess ber þó að geta að tölvuleikjaspilun flokkast engan veginn undir áhugamál eða íþrótt sem átt er við!

Galli: Viðkomandi gerir sér á engan hátt grein fyrir notkun peninga eða hvað það þýðir að þurfa að vinna fyrir sér.

Aðferð 4: Vasapeningar og lán

Barnið/unglingurinn fær vasapeninga til daglegra nota en þegar þarf að kaupa stærri hluti fær viðkomandi lán hjá foreldrum sínum ef enginn sparnaður er fyrir hendi.

Kostur: Viðkomandi skynjar betur verðgildi hluta og mikilvægi peninga og sparnaðar. Það þarf nefnilega að borga lán til baka, þó svo að vextirnir séu lágir eða engir.

Galli: Ef foreldrarnir standa ekki við lánasamninginn, taka hann ekki alvarlega eða gleyma honum, þá er líklegt að viðkomandi læri ekkert á þessu, en upplifi hins vegar að það sé ekkert sérstaklega mikilvægt að borga lán til baka.

Aðferð 5: Fjárhagslegt sjálfstæði

Foreldrar og unglingar (á við frá 15 ára) ákveða fasta mánaðarlega upphæð fyrir mat í skólanum, bíóferðum, fötum, farsímanotkun og fleiri þáttum. Unglingurinn fær upphæðina og þarf sjálfur að sjá um að passa í hvað hann eyðir.

Kostur: Foreldrar losna við að þurf að þrátta við viðkomandi um að hann vilji kaupa þetta og hitt. Nú er hann/hún með ákveðna upphæð sem hann þarf að ráðstafa sjálfur. Viðkomandi verður næmari á hvað hlutir kosta, hvað er dýrt og hvar má nálgast tilboð til að fá sem mest fyrir peningana sína. Unglingurinn lærir að forgangsraða hvað er mikilvægast að kaupa, en þó þarf að styðja hann vel í upphafi og kenna honum því þegar maður er 15 ára geta kaup á 10 þúsund króna tölvuleik ef til vill flokkast sem það mikilvægasta!

Galli: Verið getur að of mikil ábyrgð sé lögð á svona ungan einstakling.

Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að við styðjum börnin/unglingana okkar í þessum efnum, kennum þeim og stuðlum að því að þau verði fjármálalæs og geti haldið út í lífið betur í stakk búin til að sinna fjármálunum sínum vel.

Efni og innihald greina endurspegla ekki mat eða skoðanir Íslandsbanka heldur einungis þeirra aðila sem þær skrifa.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall