Kostnaðargreining heimilisbókhaldsins

10.04.2012 - Rúnar Guðnason

Flest farsæl fyrirtæki halda kostnaðarbókhald. Þetta gera þau til þess að greina hvaðan kostnaður er að koma og með hvaða leiðum sé hægt að draga úr kostnaðinum. Kostnaðargreiningu má einnig beita á heimilisbókhaldið.

Það eru eflaust margir sem glíma við það vandamál í hverjum mánuði að pyngjan er farinn að léttast verulega og enn langt í næstu mánaðarmót. Fólk fórnar höndum og veltir því fyrir sér hvar það geti skorið niður svo endar nái saman.

Til þess að geta skorið niður þarf að byrja á því að greina kostnaðinn sem fellur til í hverjum mánuði. Þessum kostnaði er hægt að skipta í fastan kostnað og breytilegan kostnað.

Fastur og breytilegur kostnaður

Hægt er að líta á heimilið líkt og lítið fyrirtæki þar sem kostnaður skiptist í fastan- og breytilegan kostnað. Fastur kostnaður er sá kostnaður sem við getum haft lítil áhrif á og er erfitt að breyta til skamms tíma.

Fastur kostnaður er því í raun föst útgjöld og falla því liðir líkt og húsnæðislán, bílalán, fasteignagjöld, skyldutryggingar, fast viðhald, hússjóður, bifreiðargjöld, leikskóla- og skólagjöld, internet, mánaðargjöld af símum, föst gjöld vegna hita og rafmagns og aðrar fastar greiðslur sem greiða þarf, undir fastan kostnað.

Hægt er að líta svo á að breytilegi kostnaðurinn sé sá kostnaður sem við getum haft áhrif á, þó svo að hluti af þessum kostnaði sé í raun fastur, samanber matarinnkaup á brýnustu nauðsynjum. Undir þennan kostnað falla því neysluliðir líkt og matarinnkaup, kostnaður vegna notkunar á símum, notkun á hita og rafmagni, eldsneyti, afþreying, fatainnkaup og svo mætti lengi telja.

Kostnaðargreining

Til þess að greina kostnaðinn sem fellur til á heimilinu er gott að stilla honum upp í Excel töflureikni. Til að byrja með er hægt að taka meðaltalskostnað síðustu 3 mánaða og skipta honum í fastan kostnað og breytilegan kostnað. Síðan er þessum kostnaði skipt upp í undirflokka. Til þess að nálgast gögn yfir eyðslu síðustu þriggja mánaða er gott að fara yfir reikningsyfirlitin í heimabankanum. Inn í þessa greiningu má ekki gleyma að taka liði sem koma til greiðslu sjaldnar en einu sinni í mánuði, líkt og bifreiðargjöld, en þau koma til greiðslu tvisvar á ári. Þegar búið er að skipta kostnaðinum upp og greina hann er komið að því að gera áætlun.

Áætlanagerð

Áætlanagerðinni er hægt að skipta upp í tvo yfirflokka. Annars vegar í fastar mánaðarlegar greiðslur og hinsvegar í neyslu. Mikilvægt er að áætlanagerðin, sem gerð er í upphafi, innihaldi raunhæf markmið sem tekur mið af neyslu síðustu þriggja mánaða. Þegar frammí sækir er hinsvegar hægt að gera ýtarlegri áætlanir sem innihalda minni frávik og ýtarlegri upplýsingar. Til þess að ná fram kostnaðarlækkun sem einhverju nemur þarf greiningin að vera ýtarleg, sem verður að teljast ólíklegt að takist fyrsta mánuðinn. Líklegt er að einhverjir kostnaðarliðir gleymist og upplýsingar líkt og kassakvittanir úr matavörubúðum eru ef til vill ekki við höndina. Eftir því sem greiningin verður ýtarlegri því líklegra er að árangur náist. Með því t.d. að skrá allt niður í matvörubúðinni sem við kaupum er ekki ósennilegt að við rekumst á vöru sem hægt er að vera án, eða finna aðra sambærilega vöru sem er ódýrari.

Þegar áætlanagerðin er framkvæmd getur verið gott að hugsa mánuðinn fram í tímann og huga sérstaklega að óreglulegu liðunum í neyslunni líkt og hvað ætla ég að eyða í skemmtanir líkt og bíóferðir, leikhúsferðir o.s.frv.

Stenst áætlunin?

Í lok hvers mánaðar er mikilvægt að skoða hvort áætlunin standist. Ef áætlunin stenst ekki þarf að finna orsökina. Orsökin getur verið að gleymst hafi að gera ráð fyrir einhverjum útgjaldaliðum eða vegna þess að eitthvað af því sem þú hugðist kaupa var dýrara en þú reiknaðir með, eða vegna þess að þú einfaldlega eyddir meira en þú ætlaðir þér. Ef eyðslan var meiri en þú áætlaðir þarf að endurskoða áætlunina, eða draga úr neyslunni í þeim flokkum þar sem farið var framúr áætlun. Ef eyðslan var minni en þú áætlaðir, þá er vert að íhuga hvort þrengja eigi markmiðin fyrir næsta mánuð, svo enn betri árangur megi nást. Mikilvægt er þó að hafa hugfast að markmiðin sem sett eru verða að vera raunhæf.

Hjálpartæki

Meniga heimilisbókhaldið er til dæmis ágætis lausn fyrir fólk til þess að greina neysluna og ætti forritið að vera flestum aðgengilegt, en Meniga er í samstarfi við stóru bankana þrjá. En til þess að ná fram auknum sparnaði þarf að greina neysluna niður mun ýtarlegra en hægt er að gera í Meniga, t.d með því að skrá niður það sem keypt var í matvörubúðinni.

Með því að greina neysluna sést betur hvar er hægt að spara og hverju er hreinlega hægt að sleppa. Með því að greina neysluna er einnig hægt að sjá hver sundurliðuð neysla er á ársgrundvelli, en með því fæst stærri mynd af neyslunni og því hægt að sjá hversu stórar upphæðir fara í suma flokka. Þegar dreginn er upp stærri mynd af neyslunni verður til frekari hvati til að draga úr henni á einhverjum sviðum þegar ljóst er hversu háar fjárhæðir fara í suma flokkana.

Með því að vera meðvitaður um eigin neyslu og vita í hvað peningunum er eytt er mun líklegra að þú munir ná árangri í sparnaði. Ef þú veist ekki með góðu móti í hvað þú ert að eyða, þá veistu ekki hvar þú getur sparað!

Efni og innihald greina endurspegla ekki mat eða skoðanir Íslandsbanka heldur einungis þeirra aðila sem þær skrifa.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall