Vönduð ákvörðun

04.04.2012 - Gunnar Hákonarson

Æskilegt er að gefa sér nægan tíma þegar taka skal mikilvægar ákvarðanir. Stærstu fjárhagslegu ákvarðanir fólks eru yfirleitt fjárfestingar í húsnæði og bifreiðum og miklu skiptir að vanda vel til verks. Gættu þess að láta tilfinningar þínar ekki stjórna þér alfarið þar sem miklir hagsmunir eru í húfi. Nýttu þér hin ýmsu tæki til þess að hjálpa þér að taka betri ákvarðanir og eitt einfalt og gott tæki er töflugreining þarfa, gjarnan nefnt skorkort. Við lok ákvörðunartökunnar er oftar en ekki komið að samningum, þá þarftu að gæta þess að samningarnir uppfylli þarfir þínar og þá er æskilegt að nýta sér samningatæknina til þess.

Skorkort

Við stöndum stundum frammi fyrir því að þurfa að taka stórar og mikilvægar ákvarðanir eins og til dæmis að skipta um starf eða að kaupa dýran hlut. Valkostirnir eru gjarnan margir og erfitt getur reynst að velja á milli þeirra. Það er æskilegt að greina hverjar þarfir þínar eru og skrá þær niður og raða þeim í röð eftir mikilvægi. Með góða þarfagreiningu að leiðarljósi má minnka líkur á að þú kaupir köttinn í sekknum. Skorkort er gagnlegt við ákvarðanatöku þar sem þarfirnar eru skráðar niður og þeim gefið vægi eftir mikilvægi þeirra. Þegar hinir ýmsu kostir hafa verið skráðir í skorkortið er einkunn þeirra reiknuð út og sá kostur sem fær hæstu einkunn er líklegastur til að uppfylla þarfir þínar. Skorkort eru gjarnan notuð við stór innkaup fyrirtækja eins og t.d. við endurnýjun bifreiða.

Þarfir Lág bilanatíðni Góð endursala Eyðsla Verð Útlit Samtals
Mikilvægi 30% 25% 25% 15% 5% 100%
Bifreið A 9 8,5 9 7 8 8,4
Bifreið B 8,5 9 9,5 8 9 8,8
Bifreið C 10 8 6 6 10 7,9

Hér sjáum við að bifreið B fær hæstu einkunnina og einkunnin er reiknuð þannig að hvert vægi er margfaldað við einkunn þess. Einkunn bifreiðar B er þá 0,3 x 9 + 0,25 x 8,5 og svo koll af kolli.

Það er einfalt að aðlaga skorkortið að ýmis konar ákvarðanatöku. Við val á atvinnumöguleikum setur þú inn þær þarfir sem þér eru mikilvægar eins og t.d. laun, vinnutími, möguleiki á frekari starfsframa innan fyrirtækis og ýmis hlunnindi. Áður en þú skilgreinir þarfir þínar er gott að skoða hvaða þarfir eru almennt skilgreindar sem mikilvægar af hagsmunasamtökum eða stofnunum. Við kaup á bíl er gott að ráðfæra sig við FÍB eða neytendasamtökin og við atvinnutilboði er gott að ráðfæra sig við viðkomandi stéttarfélag eða spyrja þá sem starfa við sambærileg störf.

Samningatækni

Þegar þú ert búinn að greina hentugasta kostinn er æskilegt að undirbúa sig vel fyrir komandi samninga. Sá aðili sem mætir betur undirbúinn til leiks er líklegri til sigurs. Yfirleitt eru samningsatriðin mörg þegar grannt er skoðað, þó svo að þau virðast fá við fyrstu sýn. Þú þarft að velta fyrir þér ýmsum samningsatriðum þó svo að þau virðast ekki í boði í fyrstu. Gott dæmi um slíkt eru starfsamningar. Það er hægt að semja um margt annað en launin þó svo að þau skipti miklu máli. Sveigjanlegur vinnutími og afnot af fyrirtækisbifreið eru dæmi um atriði sem geta komið upp í samningaviðræðum ásamt mörgum öðrum. Ef þú kynnir þér öll hugsanleg samningsatriði sem geta komið upp þá ertu mun líklegri til að ná góðum samningi. Ekki óttast að hafa frumkvæði að nýjum samningsatriðum þar sem vinnuveitendur kunna vel að meta frumkvæði. Ef þér tekst að koma að nýjum samningsatriðum þá eru ágætis líkur á því að þú sért betur undirbúinn en gagnaðilinn og það gefur þér forskot. Rannsóknir sýna að fólk kemur almennt illa undirbúið að samningaborðinu.

Samningatækni gengur einmitt út á það hvernig best sé að undirbúa sig fyrir samningaviðræður. Með því að greina þarfir þínar þá getur þú ákveðið mörk fyrir hvert og eitt samningsatriði, hverjar eru óskir þínar og hve mikið getur þú gefið eftir. Það er mjög mikilvægt að ákveða fyrirfram hvert lág/hámark þitt er (e. BATNA) og skrifa það niður svo þú semjir ekki af þér í hita leiksins. Reyndu svo eftir fremsta megni að komast að mörkum viðsemjanda þíns til að öðlast samningsforskot. BATNA segir til um hvaða valmöguleika þú hefur ef samningar nást ekki og því skaltu ekki víkja frá þínu BATNA. Dæmi um BATNA er að þér býðst 500 þúsund í laun frá atvinnurekanda A og því myndir þú ekki semja um lægri upphæð við atvinnurekanda B.

Því miður eru margir hræddir við að vera fyrri til að nefna samningstillögur eins og t.d. verð. Það eru góðar líkur á að endanlegt verð verði nálægt fyrstu tölu en það er þó ekki algilt. Það sem skiptir mestu máli er hversu vel þú undirbýrð þig. Ef þú ert illa undirbúinn þá getur það verið gott fyrir þig að láta viðsemjandann nefna fyrstu tölu. Gættu þess þó að að fallast aldrei á fyrsta tilboð, komdu alltaf með gagntilboð. Ef þú ert vel undirbúinn þá skaltu óhikað vera fyrri til að nefna fyrsta tilboð og reyna að ná þannig yfirhöndinni í samingaviðræðunum.

Samingaviðræður ganga ekki endilega út á að einn sigri annan. Góðir samningar fela í sér að báðir aðilar séu sáttir og ánægðir með niðurstöðuna. Sýndu viðsemjandanum áhuga og spurðu hann hver markmið hans eru og reyndu að hámarka hag hans án þess þó að þú þurfir að gefa eftir í meginatriðum. Þannig skapar þú virði og getur þér gott orðspor.

Efni og innihald greina endurspegla ekki mat eða skoðanir Íslandsbanka heldur einungis þeirra aðila sem þær skrifa.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall