Sparnaður borgar sig

09.04.2014 - Sara Margareta Fuxén

Sparnaður á að vera sjálfsagður hluti af fjármálum hvers og eins. Í raun er jafn nauðsynlegt um hver mánaðarmót að greiða í sparnað og að greiða reikningana. Hægt er að velja fjöldamargar leiðir til að spara en sú leið sem mest er rætt um í dag er tvímælalaust séreignarsparnaðurinn. 

Ákveðið hlutfall af launum 

Séreignasparnaður er góð leið til að leggja fyrir, en þú leggur til 2%-4% af launum og launagreiðandi greiðir alla jafnan 2% mótframlag. Sparnaðurinn er undir venjulegum kringumstæðum ekki laus til úttektar nema við 60 ára aldur eða við örorku. Frá árinu 2009 hefur þó verið í gildi tímabundin heimild til að taka út séreignarsparnað, en sú heimild fellur niður í árslok 2014. 

Ríkisstjórnin kynnti fyrir stuttu tvö frumvörp til laga sem miða að því að lækka húsnæðisskuldir heimilanna í landinu. Aðgerðin er tvíþætt og hefur fengið opinbera heitið „Leiðréttingin“. Annars vegar er um að ræða beina niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar skattfrjálsa ráðstöfun á iðgjöldum séreignasparnaðar inn á húsnæðislán eða til húsnæðiskaupa. 

Af hverju ætti ég að nýta þessar aðgerðir?

Samkvæmt tillögunni geta þeir sem eru með samning um séreignasparnað sótt um að nýta iðgjöldin sín til að greiða inn á húsnæðislán. Með þessu verður eignamyndun í húsnæðinu hraðari og afborganir og vextir af láninu lækka að öðru jöfnu. Í frumvarpinu er miðað við að fjölskylda geti nýtt allt að 500 þús. kr. af iðgjöldum sínum á ári í þrjú ár skattfrjálst, eða samtals 1,5 milljón. 

Þeir sem eru ekki eigandi íbúðarhúsnæðis, en eru með samning um séreignasparnað, geta samkvæmt tillögunni sótt um að nýta iðgjöld sín skattfrjálst til húsnæðiskaupa. Aftur er um að ræða hámark 500 þús. kr. á ári á fjölskyldu, eða samtals samtals 1,5 milljón kr., en heimilt að fresta úttekt til 30. júní 2019. Þetta gerir sparnað fyrir húsnæðiskaupum mun einfaldari.

Lítil áhrif á launaseðil

Að nýta séreignasparnaðinn á þennan hátt einfaldar sparnað eða niðurgreiðslu lána en hefur hlutfallslega lítil áhrif á útborguð laun. Gott dæmi er einstaklingur sem hefur 500 þús. kr. í mánaðarlaun og lætur taka 2% af launum mánaðarlega. Þessi aðili fær 2% mótframlag frá launagreiðanda og nær þannig að leggja fyrir 20 þús. kr. á mánuði, en útborguð laun lækka hins vegar ekki nema um 6 þús. kr. á mánuði.

Skattfrelsi 

Mikilvægt er að hver og einn kynni sér tillögur ríkisstjórnarinnar því að greiða niður skuldir er einhver besta leiðin til eignarmyndunar. Úrræðin ættu að henta stórum hluta heimila, en þó ætti að skoða málið sérstaklega fyrir þá sem kunna að eiga á hættu að lenda í gjaldþroti.

Að sama skapi er mikilvægt að fólk gangi frá samningi um séreignarsparnað ef það hefur ekki gert það nú þegar, hvort sem það mun nýta sér úrræðin eða ekki. Séreignarsparnaður er afar hagkvæmur sparnaðarkostur og gefur fólki kost á að hækka launin sín með mótframlagi vinnuveitanda.

Þú færð allar nánari upplýsingar um séreignasparnað hjá ráðgjöfum VÍB. Nánar á VIB.is

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 3. apríl 2014.

Efni og innihald greina endurspegla ekki mat eða skoðanir Íslandsbanka heldur einungis þeirra aðila sem þær skrifa.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall