Upphitun fyrir úrslitaleik HM

11.07.2014 - bjornberg

Stórveldi mætast í úrslitaleik

20. heimsmeistaramótinu í knattspyrnu lýkur nú um helgina. Keppnin hefur verið söguleg í marga staði og stórkostleg skemmtun líkt og venjan er. Henni er hinsvegar ekki alveg lokið en leikurinn um þriðja sætið fer fram á laugardaginn og svo auðvitað úrslitaleikurinn sjálfur á sunnudagskvöld. Þar mætast tvö knattspyrnustórveldi, 2 af þeim 8 löndum sem hafa orðið heimsmeistarar. Argentínumenn leika sinn fimmta úrslitaleik en Þjóðverjar í sinn áttunda. Þar mætast einnig sigursælustu heimsálfur knattspyrnusögurnar, S-Ameríka og Evrópa með 9 titla annarsvegar og 10 hinsvegar en takist Argentínu að sigra jafnar S-Ameríka metin.

Þjóðverjar eru taldir líklegri sigurvegarar eftir ævintýralegan sigur á Brasilíu í undanúrslitunum, en liðið hefur spilað á köflum stórkostlega knattspyrnu og liðsandinn virkað gríðarsterkur. Argentínumenn eru hinsvegar vanari loftslaginu og með þeim leikur einn besti knattspyrnumaður sögunnar sem getur töfrað fram ótrúlega hluti. Við hjá VÍB höfum skemmt okkur vel yfir því að skoða vinkil fjármála og efnahagsmála á heimsmeistarakeppninni og vonum að þetta framtak hafi svalað forvitni og vakið áhuga einhverra. Í takti við þá umfjöllun fannst okkur vel við hæfi að taka óhefðbundna upphitun fyrir leik Þýskalands og Argentínu, einmitt með því að skoða hagkerfi landanna tveggja.

Krónan hefur styrkst um 106% á móti pesó síðan 2012

Hagsaga Argentínu er ansi mögnuð. Síðastliðinna áratugi hefur myndast hefð fyrir því að landið fari í greiðsluþrot á u.þ.b. 10 ára fresti og er eitt slíkt yfirvofandi núna. Frá ársbyrjun 2012 hefur dollarinn styrkst um 90% og krónan 106% á móti argentíska pesónum. Þá má einnig benda á þá ótrúlegu staðreynd að síðan 1969 hafa 13 núll verið tekinn af pesóanum. Það er þó ekki nóg að skoða hið opinbera gengi en í landinu er einn af stærstu svörtu gjaldeyrismörkuðum heims. 

Stór svartur markaður með gjaldeyri

Svo stór er svarti markaðurinn að dagblöð landsins birta gengi hans daglega, þá má einnig fylgjast með því í rauntíma á fjöldi vefsíðna en þar er virk verðmyndun líkt og á venjubundnum fjármagnsmörkuðum. Miðað við núverandi stöðu kostar hver dollari um 12 pesóa á svörtum mörkuðum en 8 á opinbera genginu sem er um 50% mismunur. Til samanburðar getum við skoðað gengi krónunnar á móti evru annars vegar á gjaldeyrismarkaði og hins vegar við gjaldeyrisútboð seðlabankans. Núverandi gengi evrunnar er 155 og niðurstaða síðasta gjaldeyrisútboðs var upp á 186. Þar er munurinn ekki nema 20% á sama tíma og flestir telja þetta eitt stærsta vandamál hagkerfisins hér heima fyrir.

Falsaðir peningar í hraðbönkum

Argentínumenn eru vanir óvenjulegum fjármálum. Í landinu telst ekki óeðlilegt og reglulega komi falsaðir peningar út úr hraðbönkum og gjaldmiðillinn hefur rýrnað gríðarlega í verðgildi á rúmlega tveimur árum. Í gegnum tíðina hefur Argentína farið mjög illa út úr óðaverðbólgu sem hefur leitt til birtingar á mjög umdeildum verðbólgutölum í seinni tíð en opinberu tölurnar hafa gjarnan verið þriðjungur af því sem almennt telst vera eðlilegt.

18.240.000.000.000 krónur undir koddum Argentínumanna

Það er lítið nýtt við það að þegnar treysti ekki hagstjórnum, sumir fara geyma sparifé undir koddanum, aðrir safna listaverkum eða jafnvel vínum. Argentínumenn hafa hinsvegar verið duglegir við það að safna bandarískum dollurum. Síðastliðin 5 ár er talið að íbúar Argentínu hafi sankað að sér rúmlega 80 milljörðum dollara og eigi þeir nú ríflega 160 milljarða dollara að langmestu leyti í reiðufé.

Forsetinn ásakaður um spillingu

Þessar upphæðir, umreiknaðar í krónur, eru 9.120 og 18.240 milljarðar króna sem íbúar Argentínu geyma að miklu leyti heima hjá sér undir koddanum, mestallt í 100 dollara seðlum. Þetta virðist ekki einungis eiga við hinn almenna þegn en sjálfur forsetinn, Christina Kirchner var ásökuð um að tengjast máli þar sem maður frá Venezuelan var gómaður á leið sinni inn í landið með ferðatösku sem innihélt 800.000 dollara. 

Tæplega tíundi hver dollaraseðill í Argentínu

Þess má geta að erlendar skuldir Argentínu eru nú um 140 milljarðar dollara, sem er einmitt lægri upphæð en á að leynast undir koddum heimila í landinu. Ennfremur, til þess að undirstrika hversu gríðarlega fjármuni er um að ræða, er talið að um 10.-15. hver dollaraseðill sem er í umferð í heiminum sé niðurkominn í Argentínu.

Dýr fjármögnun

Traust er ekki bara takmarkað hjá íbúum Argentínu heldur einnig fjármagnsmörkuðum. Árið 2012 var fjármögnunarkostnaður Argentínu um 11%, eða rúmlega tvöfalt hærri en meðaltal þróaðra hagkerfa. Þeim hefur því sannarlega verið refsað fyrir að falla ítrekað frá skuldum sínum.

Kíló af kjöti á 36 milljarða

Þýska hagkerfið er ekki síður magnað né er saga þessi ómerkilegri. Margt er sameiginlegt í hagsögum landanna. Ekki síst að báðar þjóðir hafa átt í baráttu við óðaverðbólgu. Árið 1923, eftir þriggja ára skeið gríðarlegrar verðbólgu, kostaði til að mynda kíló af kjöti í Þýskalandi um 36 milljarða marka. 

Valdamesta kona í heimi

Í Þýskalandi eru aðstæðar þó allt aðrar og betri í dag. Þjóðverjar eru ein öflugasta iðnaðarþjóð heims, búa við lága verðbólgu og einhverja lægstu vexti sem fyrirfinnast í heiminum. Þá er Angela Merkel, kanslari, sem hefur einmitt sést skemmta sér stórkostlega yfir heimsmeistaramótinu, gjarnan verið talin valdamesta kona heims. Þeir búa þó vissulega við evruna sem hefur fengið að þola sinn skerf af titringi, erfiðlega hefur gengið að ná upp hagvexti og vandamál á evrusvæðinu hafa vissulega tekið á Þjóðverja.

Átak eftir EM 2000

Þjóðverjar ollu miklum vonbrigðum á Evrópumótinu árið 2000 þegar þeir komust ekki upp úr riðlakeppninni. Ákveðið var að umbylta knattspyrnustarfi í landinu undir leiðsögn þýska knattspyrnusambandsins. Mikill kraftur var settur í hvatningu við knattspyrnuiðkun og allir 6 ára og eldri voru settir í gegnum sambærilega staðlaða þjálfun til að reyna greina snemma þá sem höfðu afburðarhæfileika þegar kemur að leikskilningi eða tæknilegum hluta leiksins. Þá var settur aukinn kraftur í menntun þjálfara, í njósnaranet til að koma auga á efnilega leikmenn og fjöldi félagsliða í Þýskalandi hóf að fjárfesta að auknum mæli í unglingastarfi. 

Einnig mikil áhersla á menntun leikmanna

Markmiðið með þessu var að draga úr líkum á því að ekki yrði komið auga á frábæra leikmenn sem fengju því ekki tækifæri til að þróast og vaxa. Hér er þó ekki einungis um þýska verksmiðjuframleiðslu að ræða því mikil áhersla er lögð á menntun leikmanna sömuleiðis. Til samanburðar telst það eðlilegt hjá efnilegum leikmönnum í Bretlandi sem eru að nálgast tvítugsaldur að þeir stundi nám færri en 10 stundir á viku. Í Þýskalandi er þó litið svo á að einungis fáeinum muni takast að verða atvinnumenn og því sé nauðsynlegt að þeir hafi góða menntun. 

Árangurinn augljós

Árangurinn leynir sér ekki. Þjóðverjar eiga næstflesta iðkendur í heimi, næstflesta kvenkyns iðkendur og það sem skiptir auðvitað mestu máli, næstflesta iðkendur undir 18 ára aldri. Árangurinn hefur svo sannarlega skilað sér, liðið komst nú í Brasilíu í fjórðu undanúrslit sín á HM í röð, sem er einmitt met. Jafnframt urðu þeir í öðru sæti á EM 2008 og komust í undanúrslit á EM 2012. Núverandi hópur liðsins er einnig mjög ungur og því ekki ósennilegt að átak sambandsins eftir EM 2000 hafi skilað góðum árangri. Með þeirra má nefna Mario Götze(22 ára), Marco Reus(25 ára), Toni Kroos(24 ára), Mesut Özil(25 ára), Mats Hummels(25 ára), Thomas Muller(24 ára), Andre Schurrle(23 ára) og Julian Draxler(20 ára).

HM síða VÍB

Höfundur: Gísli Halldórsson, VÍB

Efni og innihald greina endurspegla ekki mat eða skoðanir Íslandsbanka heldur einungis þeirra aðila sem þær skrifa.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall