Fjármálin í Brasilíu

11.07.2014 - bjornberg
Frá upphafi heimsmeistaramótsins í Brasilíu hefur VÍB hannað 22 upplýsingamyndir um fjármálahlið íþróttarinnar.

Markmiðið er að miðla áhugaverðum upplýsingum um umfang og framkvæmd mótsins, þátttökuþjóðirnar, samanburð við fyrri keppnir og fleira sem kryddað getur upplifun okkar af þessari stórskemmtilegu knattspyrnuveislu. Myndirnar eru allar aðgengilegar á síðunni www.vib.is/fotbolti.

Framkvæmdirnar

Heimsmeistaramótið í Brasilíu er það langdýrasta frá upphafi. Reistir voru afar glæsilegir vellir, töluverðar framkvæmdir voru við innviði á keppnisstöðum og víða fóru fjárútlát langt fram úr áætlunum. Ef nýjustu áætlanir reynast réttar verður heildarkostnaður við mótið tæplega 1.600 milljarðar króna, sem er ríflega þreföld sú upphæð sem kostað var til heimsmeistaramótsins í Suður-Afríku. Reiknað er með að næsta mót, í Rússlandi verði enn dýrara og kosti um eða yfir 2.000 milljörðum en þar hafa áætlanir sömuleiðis engan vegin staðist frá því hafist var handa og tvöfaldast á 4 árum.

Tekjur 

Heimsmeistaramótið er næst dýrasta knattspyrnumót heims, á eftir ensku úrvalsdeildinni, þegar litið er til sölu útsendingarréttar. 42% tekna FIFA af mótinu koma frá sjónvarpsstöðvum, þriðjungur frá kostunaraðilum, sem teljast formlegir samstarfsaðilar mótsins og um fjórðungur annars staðar frá, svo sem frá miðasölu, varningi og útgáfu tölvuleikja. Reiknað er með að heildartekjur FIFA vegna mótsins verði um 67% hærri en þær voru fyrir fjórum árum. Sambandið á nú um 160 milljarða króna í varasjóðum og standa heimsmeistaramót undir langstærstum hluta tekna þess.

Áhrif á verðbréfamarkaði

Mjög hægir á viðskiptum í kauphöllum þeirra landa sem eiga leik á HM. Eftir góðan árangur á mótinu hækka vísitölur umfram aðrar til skamms tíma en þegar litið er til næstu 12 mánaða eftir að móti líkur dragast viðkomandi markaðir aftur úr meðaltalinu. Ítarlega var rætt um þetta í grein VÍB, „Áhrif HM á verðbréfamarkaði".

Næstu mót

Heimsmeistaramótið í Rússlandi árið 2018 var til umræðu í grein VÍB, „Dýrt mót í Rússlandi“. Svo virðist sem mótið verði afar áhugavert þegar litið er til fjármála og hafa Rússar þegar sett merkilegt fordæmi á Ólympíuleikunum glæsilegu í Sochi.
Katarar gera svo ráð fyrir að halda dýrasta íþróttamót sögunnar árið 2022, þegar byggja á heilu borgirnar utan um loftkælda glæsivelli, klædda sjónvarpsskjám. Engu verður til sparað og umfangið meira en áður hefur þekkst.

HM síða VÍB

Nánari upplýsingar veitir Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri fræðslu og viðskiptaþróunar VÍB í síma 844-4869.

Efni og innihald greina endurspegla ekki mat eða skoðanir Íslandsbanka heldur einungis þeirra aðila sem þær skrifa.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall