Dýrt HM í Rússlandi

03.07.2014 - bjornberg

Heimsmeistaramótið í Brasilíu er það dýrasta sem haldið hefur verið. Allra augu eru að sjálfsögðu á stórskemmtilegum leikjunum en undirbúningur er þó strax hafinn við næsta mót sem fram fer í Rússlandi 2018.

Ráðherra íþróttamála í Rússlandi segist hafa áhyggjur af framkvæmdum við alla leikstaði og hafa áætlanir um kostnað tekið töluverðum breytingum undanfarin ár. Árið 2010 sagðist Vladimir Putin reikna með að heildarkostnaður næmi um 1.100 milljörðum króna en Dmitry Medvedev hækkaði þá tölu í fyrra upp í 2.300 ma.kr. að lágmarki. Eftir nokkrar aðhaldsaðgerðir hefur áætlunin nú verið lækkuð nokkuð, eða niður í rétt um 2.000 ma.kr. Til samanburðar er reiknað með að heildarkostnaður heimsmeistaramótsins í Brasilíu verði um 1.600 ma.kr, sem er þreföld sú upphæð sem gefin hefur verið upp vegna mótsins í Suður-Afríku 2010.

Í hvaða fara fjármunirnir?

nullSamanburður á kostnaði við stórmót getur verið nokkur villandi, enda afar misjafnt hversu umfangsmiklar framkvæmdir er ráðist í. Töluverður munur getur verið á nauðsynlegum framkvæmdum við innviði viðkomandi landa og misjafnt er hversu stór hluti er fjármagnaður af einkaaðilum.

Skipuleggjendur mótsins gera ráð fyrir að helmningur kostnaðar falli á ríkið, 15% á rússnesk héruð og borgir og 35% verði framkvæmdir af hálfu einkaaðila. Alls verður ráðist í hátt í 300 framkvæmdir, m.a. 12 leikvanga, 113 æfingavelli (sem kosta um 4 ma.kr) og 62 hótel. Auk þess er gert ráð fyrir meiriháttar framkvæmdum við 11 flugvelli, en samkvæmt kröfum FIFA má ekki vera lengra en 100 km frá stórum flugvelli að leikvangi. Sett hafa verið lög sem eiga að tryggja greiðslu allt að 2.400 ma.kr. vegna mótsins.

Auk þess sem FIFA gerir kröfur um nútímalegar aðstæður og vandaða innviði er rík áhersla lögð á glæsilega leikvanga. Lágmarkssætafjöldi er 30.000 og líkt og í Brasilíu uppfylla þeir leikvangar sem fyrir eru í Rússlandi ekki strangar kröfur FIFA. Tveir leikvangar verða lagfærðir (í Yekaterinburg og þjóðarleikvangurinn í Moskvu) og 10 nýir byggðir. Kostnaður er talinn nema um 780 mö.kr., en upphaflega áætlanir hljóðuðu upp á 320 ma.kr. Dýrastur verður leikvangurinn í St. Pétursborg, en hann verður dýrari en þjóðareikvangurinn í Brasilíuborg og þar með sá næst dýrasti í heimi, á eftir Wembley í London. Sætafjöldi í efstu deild eykst með framkvæmdunum um þriðjung en í vetur var sætanýting þar einungis 60% að meðaltali.

Meðal umdeildra framkvæmda í Rússlandi er stækkun Central vallarins í Yekaterinburg. Þessi glæsilegi leikvangur var opnaður að nýju árið 2011 eftir 9,3 ma.kr. endurbætur og á honum leika Sölvi Geir Ottesen og félagar í FC Ural. Völlurinn var að meðaltali hálftómur á heimaleikjum liðsins í vetur en nú á að nýju að ráðst í afar kostnaðarsamar framkvæmdir og stækka hann enn frekar, eða úr 27.000 sætum í 44.000. Borgarstjórinn í Yekaterinburg virðist síður en svo hrifinn af framkvæmdunum (sem kosta um 56 milljarða) og hefur talað fyrir því að hinn nýi leikvangur verði færður úr borginni.

Samanburður við Sochi

nullÞað er erfitt að ræða um kostnað við HM í Rússlandi án þess að rifja upp Vetrarólympíuleikana í Sochi. Gríðarlegur kostaðurinn hefur mikið verið ræddur og þegar fréttir berast af auknum kostnaði við heimsmeistaramótið heyrist stundum að „annað Sochi“ sé í uppsiglingu.

Eins og áður segir er samanburður þó ekki alltaf sanngjarn. Heildarkostnaður við Ólympíuleikana hefur verið sagður um 5.800 ma.kr. (þrefaldur kostnaður HM í Brasilíu) en þar af fóru „aðeins“ 13% eða 760 ma.kr. í aðstöðu vegna leikanna sjálfra. Fjárfestingar vegna vega- og lestakerfis og annarra innviða námu um þriðjungi, eða 1.900 ma.kr.. Sá ríflega helmingur sem eftir stendur er sagður vera einkaframkvæmd á svæðinu.

Það er þó óumdeilt að Ólympíuleikarnir fóru langt fram úr fjárhagsáætlunum og það virðist stefna í það sama á HM 2018.

Nánari upplýsingar um fjármál á HM má sjá á HM síðu VÍB.

Efni og innihald greina endurspegla ekki mat eða skoðanir Íslandsbanka heldur einungis þeirra aðila sem þær skrifa.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall