Áhrif HM á verðbréfamarkaði

20.06.2014 - Gísli Halldórsson

HM í knattspyrnu fer af stað með krafti, heimili landsins halda grillpartý og barir bæjarins blómstra. VÍB, eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, mun fjalla um fjármál og HM á meðan mótinu stendur og heldur úti síðunni Vib.is/fotbolti

Áhrif mótsins eru ansi víðtæk og þar eru alþjóðlegir verðbréfamarkaðir engin undantekning. Nokkrar rannsóknir hafa verið framkvæmdar á áhrifum heimsmeistaramótsins sem leiða ýmislegt áhugavert í ljós.

Sigurliðið

Samkvæmt rannsókn Goldman Sachs hækkar hlutabréfamarkaður heimsmeistaranna að meðaltali 3,5% umfram heimsmarkaði fyrsta mánuðinn í kjölfar sigurs. Einungis einu sinni hefur það gerst síðan 1974 að heimsmeistararnir hafi ekki gert betur en aðrir fyrsta mánuðinn.
Gleðin er hinsvegar skammvinn og þegar litið er til ávöxtunar í eitt ár frá sigri hefur hlutabréfamarkaðurinn ávaxtast um að meðaltali 4% minna en heimsmarkaðurinn.

Silfurliðið

Önnur staða er uppi þegar við skoðum silfurlið mótsins. Argentína er þar að vísu frávik en markaðurinn þar hækkaði 33% fyrsta mánuðinn eftir HM 1990. Ef við lítum fram hjá Argentínu og skoðum 10 síðustu mót hefur heimamarkaður silfurliðssins skilað verri ávöxtun en heimsmarkaðurinn mánuð eftir mót í 7 af 9 tilfellum og að meðaltali um 1,4%. Þegar þrír mánuðir frá móti eru skoðaðir hefur ávöxtunin dregist aftur úr um heil 5,6%.

Gestgjafarnir

Áhrifin virðast vera minni hjá gestgjöfunum sjálfum. Fyrsta mánuð eftir mót hefur hlutabréfaverð þar í landi gert að meðaltali 2,7% betur en heimsmarkaðir. Sú frammistaða versnar þó skjótt og þegar litið er til þriggja mánaða er árangurinn jafnvel verri.
Ljóst er að það hefur mismikil áhrif á greinar viðskiptalífsins að halda heimsmeistaramót. Ein grein sem markaðirnar hafa veðjað á að muni hagnast á mótinu í Brasilíu er flugbransinn en Gol sem er nærstærsta flugfélag Brasilíu hefur hækkað um rúm 19% frá áramótum og 36% síðustu 12 mánuði. Sömuleiðis hefur Cielo sem er brasilískt kreditkortafyrirtæki hækkað gríðarlega síðustu mánuði enda þar saman komnar tvær greinar sem gætu notið góðs af mótinu, til skemmri tíma í það minnsta.

Annað áhugavert dæmi er ein stærsta bruggverksmiðja Brasilíu, Ambrev, en bréf þeirra lækkuðu meira en þau höfðu gert í 5 ár eða 5% þegar brasilísk yfirvöld ákváðu í vor að hækka skattlagningu umtalsvert á bjór í kringum mótið.
Sjá nánar á meðfylgjandi mynd sem tekur meðal annars dæmi um þróun nokkura skráðra félaga í Brasilíu.

Virkni og velta á markaði

Verðbréfamiðlarar og fjárfestar virðast hægja á fjárfestingum sínum saman þegar leikirnir sjálfir eiga sér stað. Evrópski Seðlabankinn framkvæmdi rannsókn á HM í Suður-Afríku þar sem fram kom að þegar landslið á viðkomandi markaði var að spila dróst tíðni saman um 45% að meðaltali og velta var 55% minni. Þá höfðu stórir viðburðir í leikjunum einnig áhrif en þegar mark var skorað dró um 5% til viðbótar úr virkni markaða. Þá vekur það einnig athygli að á meðan landslið á leik á HM minnka tengsl ávöxtunar viðkomandi hlutabréfamarkaðar við heimsmarkaði töluvert. Tengslin og fylgni ávöxtunar dragast saman að meðaltali um rúmlega 20%. Það sem gerir þetta sérstaklega áhugavert er að um hádegi, þegar tíðni viðskipti dregst einnig mikið saman, eru engin slík tengsl sjáanleg við heimsmarkaðinn.

Hollenski seðlabankinn framkvæmdi sömuleiðis áhugaverða rannsókn á sama móti þar sem þeir sýndu fram á að gengi liðann hefur mikil áhrif á fjárfesta á viðkomandi markaði. Líkur á brotfalli af mótinu hefur aukið líkurnar á að fjárfestar undirverðleggi bréf.
Sömuleiðis sýndi rannsókn sem birt var í The Journal of Finance árið 2007 að áhrif þess að detta úr leik á HM lækki hlutabréfamarkað í viðkomandi landi um að jafnaði 0,5% næsta dag. Áhrifin má sömuleiðis sjá í öðrum stórum íþróttargreinum og virðist hafa meiri áhrif á minni fyrirtæki en þau stærri. Við vitum ekki til þess að sambærilegar rannsóknir hafi verið framkvæmdar á Íslandi en áhugavert væri að skoða þróun innlendra markaða við gengi landsliða okkar og þá kannski ekki síst í handbolta.

Nánari upplýsingar um fjármálin á HM má sjá á HM síðu VÍB: http://www.vib.is/fotbolti

Höfundur: Gísli Halldórsson

Heimildir:
http://www.ecb.europa.eu/pub/pdf/scpwps/ecbwp1424.pdf

http://www.dnb.nl/en/binaries/Working%20Paper%20412_tcm47-302771.pdf

http://faculty.london.edu/aedmans/SteelJF.pdf

http://www.goldmansachs.com/our-thinking/archive/world-cup-sections/world-cup-book-2014-equity-markets.html

www.bloomberg.com

 

Efni og innihald greina endurspegla ekki mat eða skoðanir Íslandsbanka heldur einungis þeirra aðila sem þær skrifa.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall